Arnór Sveinsson
Um mig
Arnór Sveinsson heiti ég, og ég brenn fyrir því að leiða fólk í átt að sjálfsvinnu. Margir sem koma til mín eru að stíga sín fyrstu skref í þessum málum, og því er gott að vera með mörg tól til að bjóða upp á. Þar sem við erum öll blanda af huga, líkama og sál, þá finnst mér mikilvægt að sjálfsvinna haldi utanum alla þessa þætti. Í tímum hjá mér leiði ég fólk inn í slökunarástand með ýmsum aðferðum, en mikilvægast finnst mér að kenna fólki að nota þessar aðferðir sjálft, svo að það öðlist vald yfir eigin taugakerfi og líkama.
Ég leiði fólk í gegnum tregður og hindranir, hvort sem þær stafa af líkamlegum eða tilfinningalegum grunni. Frekar en að týnast í nákvæmum aðferðum, reglum og formúlum, þó þær hafi sinn tilgang, legg ég áherslu á að fólk læri grundvallaratriði. Sem dæmi kenni ég ekki eina ákveðna öndunaraðferð heldur almennt um öndun og hvernig við getum nýtt okkur hana á margvíslegan máta. Þegar það kemur að minni sérþekkingu þá kem ég úr ýmsum áttum, en í gegnum árin hef ég sankað að mér lærdóm frá kennurum víðsvegar um heiminn. Eftir að ég hafði unnið á sjó í 11 ár ákvað ég a ð snúa blaðinu við og safna mér þekkingu sem við kemur heilsu. Ferðalagið hófst þegar ég lærði yoga í Taílandi og kynntist þar munki sem kendi mér hugleiðslu. Auk þess hef ég lært eftirfarandi: Öndun, líkamsrækt, tónheilun, stoðkerfislausnir, kviðar/líffæranudd, markþjálfun, kuldaþjálfun, vatnameðferðir, jóga og hugleiðslu.
Ég held úti reglulegum námskeiðum þar sem mikið af þessu er blandað saman. Ég er bæði með staka tíma og lengri námskeið. Ég býð líka upp á einkatíma þar sem meðferðin miðast út frá þörfum einstaklingsins hverju sinni, en mörgum finnst hjálplegt að koma reglulega yfir nokkurra mánaða skeið. Ég býð nýverið upp á vatnameferðir fyrir einstaklinga og pör. Nokkrum sinnum yfir árið held ég helgar retreat þar sem mörgum af þessum aðferðum og upplifunum er blandað saman.
Það er, eins og sést, erfitt fyrir mig að lýsa mér í nokkrum orðum, en í grunninn byggja þessar aðferðir á því að komast í tengingu við innra sjálfið. Meirihluti vestræna heimsins virðist vera í streitu, kvíða eða þunglyndi, og því brenn ég fyrir því að hjálpa fólki að fylgja og hlusta á hjartað.
Nánar um aðferðirnar
Öndun
Ég lærði grunninn að öndun í jógafræðinni, en ofan á það hef ég lokið kennaranámi hjá Wim Hof (Wim Hof Method), og einnig hef ég lokið Level 1 og 2 í Breathwork Masterclass hjá Kasper Van Der Meulen, sem er með fremstu öndunar þjálfurum í vestræna heiminum..
Stoðkerfislausnir og líkamsrækt
Mikið af því sem ég hef lært um líkamsrækt og stoðkerfislausnir kemur úr jóga, en þegar ég byrjaði að vinna með Primal Iceland teyminu fór sú þekking á næsta stig. Í Primal er leitast við að finna rótar orsök vandans, og er unnið að því að styrkja, auka liðleika og hreyfigetu, auk þess að bæta hreyfiferla, til þess að koma í veg fyrir meiðsl. Stefnan er að hjálpa fólki að öðlast frelsi í eigin líkama. Ég lærði líka Rope yoga hjá Guðna Gunnarssyni, og öðlaðist kennsluréttindi hjá honum.
Markþjálfun
Ég lærði markþjálfun hjá Evolvia, en markþjálfun gengur út á það að hjálpa fólki að komast að því hvað það vill í lífinu. Með ákveðnum aðferðum er einstaklingurinn leiddur að því að komast sjálfur að svörum sinna eigin spurninga. Ég nota markþjálfun mikið í einkatímum og námskeiðum.
Kuldaþjálfun
Ég lærði kuldaþjálfun hjá Wim Hof (Wim Hof Method), en hún gengur út á það að öðlast þol fyrir kuldanum og nýta sér hann til heilsubótar. Kuldinn getur minnkað bólgur og unnið á bólgusjúkdóma, aukið orku, styrkt ónæmiskerfið, flýtt fyrir bata, bætt andlega líðan og margt fleira. Í raun er kuldinn “jákvætt stress” á líkamann, sem getur verið gott í stuttan tíma í senn.
Tónheilun
Ég komst í kynni við tíbeskar tónskálar þegar ég lærði hjá manni sem heitir Raúl, sem var þá að kenna mér nudd (ancient massage). Skálarnar vöktu forvitni mína og lét ég senda til mín sérvaldar skálar frá tíbet sem ég tvinnaði inn í tímana mína. Auk þess nota ég líka trommu og gong, til dæmis í öndunar leiðslum og slökun.
Kviðar/Líffæranudd
Í taílandi lærði ég kínverskt líffæranudd sem nefnist Chi Nei Tsang. Mín reynsla er sú að mikið af tregðum og tilfinningalegri spennu leynist í kviðarholinu, meðal annars í bandvefnum. Ég hef séð góðan árangur hjá fólki sem kemur til mín í þetta nudd, og oft virðist losna um verki í baki og öxlum, þar sem bandvefurinn tengist þessu öllu saman.
Vatnameðferðir
Ég lærði flotmeðferð (Þrep 1 og 2) hjá Flothettu teyminu. Meðferðin snýst um að ná djúpri slökun í þyngdarleysi vatnsins. Notast er við liðkandi hreyfingar, nudd og vefjalosun í vatninu, og fer fólk í djúpt viðgerðarástand. Ég lærði líka aðferð sem heitir Liquid cosmos, frá Marina Sans og kemur frá Portúgal. Hjá henni lærði ég öðruvísi nálgun á vatnameðferð, og blanda ég þessum aðferðum saman í einkameðferðum og á retreat-um.
Jóga
Ég hef lært jóga í Taílandi, Indlandi og hjá Kristbjörgu Elínu Kristumdardóttir. Í raun flokkast allt sem ég geri í dag undir jóga, ef farið er út í spekina á bak við jóga. Jóga hefur verið grunnur að því sem ég kenni, því jóga þýðir einfaldlega eining. Eining milli hugar, líkama og sálar.